top of page

Hvernig spjaldtölvu er um að ræða

Svartur standard iPad 2019. HÉR má lesa sér til um gripinn.

Afhverju þetta verkefni

Undanfarin 6 ár höfum við í Vallaskóla unnið þróunarverkefni með fjölbreytta kennsluhætti og rafrænt nám. Skólinn hefur líka tekið þátt í tveimur Erasmus+ verkefnum sem snúa að notkun á snjalltækjum í skólastarfi og 1 á 1 notkun. Margar leiðir hafa verið farnar en þar er áberandi hve iPad hefur nýst vel í allri sköpun og fjölbreyttum kennsluháttum og hversu algengt er að iPad verði fyrir valinu sem vinnutæki.

 

Verða foreldrar að kaupa tæki

Alls ekki. Þeir sem ekki hafa áhuga á að kaupa tæki fá skaffað tæki frá skólanum. Þau tæki eru aðeins eldri foreldrum býðst að kaupa í þessari kaupleigu en ekkert sem þau tæki geta ekki gert sem nýrri geta. Markmiðið með kaupleigunni er að allir nemendur hafi aðgang að sínu tæki. Ef niðurstaðan verður að ekki nægilega margir kaupa tæki og skólinn á ekki nógu mörg tæki til útláns þarf að endurskoða aðeins hvernig uppleggið verður. Mögulega þarf að takmarka tíma bekkja með tæki og dreifa skólatækjum meira út sem bekkjarsettum. Best væri ef við næðum 1:1 markmiðinu, þ.e. að allir hafi aðgang að tæki. Komi til að skólinn skaffi tæki munu nemendur ekki getað farið með þau tæki heim, heldur yrðu þau geymd í skólanum.

 

Má nota tæki sem heimilið á nú þegar

Að sjálfsögðu. Það þarf ekki að vera Ipad, má vera fartölva, Android eða Windows tæki. Ástæða þess að öllum býðst eins tæki er að tryggja aðgengi. Ef nemandi kemur með annars konar tæki að heiman er alltaf hætta á einhverskonar samkeyrsluvanda. Starfsfólk mun reyna að tækla það eftir fremsta megni.

 

Hversu mikið þurfa börnin að nota tækin heima við

Heimanám fer minnkandi í grunnskólum landsins. Námið í Vallaskóla er að miklu leyti verkefnamiðað nám og nemendur sem ekki ná að ljúka við verkefni á settum tíma í skólanum gætu þurft að vinna það upp heima. Það er að sjálfsögðu hægt að nota allar tegundir tækja við það. HEIMALESTUR HELST ÓBREYTTUR.

 

 

Afhverju skaffar sveitarfélagið (eða skólinn) ekki tæki fyrir alla

Mjög fá sveitarfélög fara þá leið núorðið að útvega tækin. Nokkrir skólar hafa byrjað þannig en breytt um stefnu og tekið upp kaupleigu, t.d. Kópavogur, Árskóli á Sauðárkróki og skólar erlendis. Til eru dæmi þar sem skaffað er en það er orðið mjög sjaldgæft og tíðkast helst í einkaskólum erlendis. Þegar eignarhaldið á tækjunum er hjá nemendum er umgengni yfirleitt betri. Kaupleiga tryggir að við getum boðið fólki að nota sín eigin tæki heima og að námi loknu ef það kýs svo. Á meðan allir hafa sín tæki er líka einfaldara að halda utan um tækin og öll umsýsla verður auðveldari, og kostnaðarminni.

 

Afhverju iPad frá Apple en ekki annars konar tæki

iPad er ennþá besta tækið þegar kemur að menntun og skólamálum. Það eru yfir 80.000 smáforrit tengd skólastarfi í Appstore, Stór rafbókasöfn í gegnum Apple og Itunes U. iPad „talar“ við öll stýrikerfi og skrársnið. iPad er um og yfir 70% af spjaldtölvum og mest netumferð fer í gegnum iPad. Fjölbreytilegra tæki og meira sem hægt er að gera en með hefðibundinni fartölvu. Hentar mjög vel í alla sköpun. iPad er mjög gott verkfæri sem hentar fyrir 21. aldar nám. iPad er í grunninn mjög einfaldur og hentar vel fyrir alla nemendur, á öllum aldri. Kópavogur hafa farið í mikla rannsóknarvinnu varðandi samanburð á tækjum. iPad kom best út þar eins og víðar í Evrópu og Bandaríkjunum. Spjaldtölvur eru núna „normið“. Tækin eru komin til að vera í skólastarfi. Nýjabrumið farið af þeim og þær hafa sannað sig sem virkilega góð tæki. iPad var áður dýrari en annars konar tæki en nú er verðið ekki lengur hindrun því tækin hafa stórlækkað í verði og kosta svipað mikið og aðrar tegundir sambærilegra tækja.

Systkinaafsláttur

Ef keypt eru 2 tæki verður veittur 50% afsláttur af vöxtum. Ef keypt eru 3 tæki eða fleiri falla allir vextir niður.

Umgengnisreglur

Hluti af þessu verkefni (hvort sem um kaupleigutæki eða tæki að heiman er að ræða) er að skóli og heimili (starfsfólk skólans, foreldrar og nemendur) skrifa undir umgengnissamning. Hægt er að sjá hann hérna á síðunni eða með því að smella hér. Neiti nemendur eða foreldrar að skrifa undir þennan samning þarf að koma fram ástæða og hvert mál tekið fyrir sérstaklega. Hafa ber í huga að þessi samningur er fyrsta uppkast, mögulega munu einstaka atriði bætast við eða breytast.

 

Er þetta fyrir allan aldur

Við viljum bjóða öllum nemendum (fjölskyldum) að kaupa tæki. Auðvitað þarf að skoða mismunandi vinnuhætti og skjátíma með yngstu börnunum miðað við þau elstu en það á eftir að móta það nákvæmlega. mögulega þyrftu líka yngstu nemendur alltaf að geyma tækin í skólanum eða viku í skóla og viku heima (það á eftir að fara yfir þetta allt betur með kennurum yngstu barnanna). Við minnum á að þetta er ennþá þróunarverkefni og því mun næsti vetur fara að miklum hluta í að móta fyrirkomulagið á mismunandi aldursstigum.

 

Tryggingar

Ef upp kemur að tæki sé stolið eða að tæki skemmist er hvert mál skoðað sérstaklega. Nemandi ber að sjálfsögðu ábyrgð á sínu tæki en alltaf geta komið upp slys og þá þarf að setjast niður með foreldrum og skólastjórnendum og fara yfir málavexti. Síðastliðin 4 ár hafa 2 tæki í Vallaskóla skemmst, eitt af höndum nemanda og eitt af höndum starfsmanns. Skólinn bætti annað tækið en hitt var í ábyrgð. Ef tæki skemmist heimavið ætti heimilistrygging að dekka það. Hlífðartöskur og skjáfilma vernda tækin gríðarlega mikið og hluti af ungengnissamningi er að búið sé að útvega bæði fyrir tæki áður en þau fara út úr skólahúsnæðinu. Þar sem tækin eru keypt í gegnum sveitarfélagið eru þau aðeins í eins árs ábyrgð. Það gildir þó bara um galla, ekki skemmdir af mannavöldum.

 

Hulstur og lyklaborð

Hægt verður að bæta við pakkann hulstrum og lyklaborðum kjósi þið það. Hægt er að skoða hvað er í boði á heimasíðu epli.is. Einnig er hægt að fara ódýrari leiðir og kaupa hulstur og/eða lyklaborð af netinu eða út í búðum eins og Tiger, Costco, Elko o.s.frv. Hér skiptir máli að velja hulstur sem hentar aldri og umgengnisvenjum ykkar barna og það er í fína lagi að kaupa ódýr hulstur. Einnig er hægt að kaupa á síðum eins og AliExpress, Ebay, Amazon o.fl. og þá er verðið oftast nær ennþá hagstæðara. Starfsfólk Vallaskóla mun aðstoða þá foreldra sem vilja við að kaupa hlífðartöskur og/eða lyklaborð en lyklaborð er alltaf val hvers og eins, hlífðartaska er skylda.

bottom of page